Um Körfustatt.is

Tölfræðivefurinn Körfustatt.is er ástríðuverkefni þriggja einstaklinga sem kalla sig Stattnördana og halda úti samnefndri síðu á Facebook. Þeir félagar Gunnar Freyr Steinsson, Óskar Ófeigur Jónsson og Rúnar Birgir Gíslason hafa undanfarin 30 ár grúskað í íslenskri körfuboltatölfræði og komið að henni hver frá sínu sérsviði eða sjónarhorni.

Það er hæpið að nokkur hafi stattað jafnmarga leiki og Óskar í gegnum árin. Margir muna eftir honum að taka tölfræði fyrir bæði lið á pappír í þríriti, oft fleiri en einn leik á kvöldi. Að öðrum ólöstuðum er óhætt að halda því fram að hann hafi séð til þess að tölfræði væri skráð almennilega í kvennaboltanum. Hann hefur við iðinn við að skrifa tölfræðitengdar greinar, fyrst fyrir DV og síðan fyrir Fréttablaðið og Vísi, og síðast en ekki síst hefur hann verið að mata Körfuboltakvöld á tölfræðitengdum fróðleiksmolum.

Skömmu eftir að Rúnar flutti suður frá Varmahlíð haustið 1995 gerði hann sig heimakominn á skrifstofu KKÍ og tók til við að fara í gegnum gamlar leikskýrslur og slá þær, ásamt tölfræði, inn í Fjölni. Fyrir þá sem ekki vita, þá var Fjölnir bókhalds- og tölfræðikerfið sem KKÍ notaði lengi vel og það var keyrt á MS DOS. Rúnar sló inn leikskýrslur og tölfræði úr úrvalsdeild karla alla leið aftur til ársins 1978, en það haust var úrvalsdeildin stofnuð.

Auk þess að taka tölfræði á Haukaleikjum veturinn 1995-96 smíðaði Gunnar Freyr fyrsta íslenska körfuboltavefinn, einmitt fyrir Hauka. Í framhaldinu var hann tvisvar fenginn til að gera vef fyrir KKÍ og lokaverkefnið hans í kerfisfræði í HR var Leikvarpið, sem fáir nema elstu menn muna eftir. Samhliða Leikvarpinu var útbúinn gagnagrunnur með gögnunum úr Fjölni, og var hann notaður sem undirstaðan fyrir tölfræðihluta KKÍ.is.

Sá gagnagrunnur er einmitt undirstaða Körfustatt.is, þó vissulega sé búið að gera ýmislegt til að bæta hann á þessum áratugum sem liðnir eru. Þar var til dæmis aðeins að finna tölfræði úr deildarleikjum í úrvalsdeild karla. Engir kvennaleikir, engir leikir í úrslitakeppni eða bikar, og engir landsleikir.

Við Stattnördarnir höfum þráast við að setja vefinn í loftið, enda vitum við af ýmsum villum í gögnunum. Þær villur skrifast á bæði mannleg mistök í innslætti sem og kerfisleg mistök – það þarf enginn að reyna að halda því fram að einn leikmaður tapi boltanum 20 sinnum í leik, eða að annar leikmaður sé með 8 villur í einum og sama leiknum. En ef við hefðum beðið þar til öll gögn voru orðin rétt, þá hefði vefurinn aldrei farið í loftið. Allir höfum við gruflað í gömlum leikskýrslum, horft á gamlar upptökur af leikjum, rótað upp ryki á timarit.is, og gert eins og við getum til að rétta gögnin af.

Okkur langar því biðja ykkur sem notið vefinn um aðstoð við að rýna gögn, senda okkur réttar upplýsingar (helst með tilvísunum svo við getum sannreynt þær). Aðeins þannig verður þessi vefur betri.

Njótið!